Þegar annað vill meira
Þegar líða tekur á sambúð/hjónaband, kemur kannski að þeim tímapunkti í samlífinu þar sem öðrum aðilanum eða jafnvel báðum fer að leiðast tilbreytingaleysi í sambandinu.
Sumum finnst jafnvel kynlífið hafa lent upp á skeri strax eftir brúðkaupið. Oft getur þessi upplifun tengst því að gerðar séu kröfur um of-iðkun kynlífs í hjónabandinu og viðmiðið þá gjarnan tekið af kynlífinu í tilhugalífinu, þegar kynlíf var jafnvel stundað daglega hvar og hvenær sem færi gafst, hvort heldur það var í hádeginu á sunnudegi , rétt fyrir kvöldverðinn eða þegar þið vöknuðuð úthvíld að morgni.
Til eru einstaklingar sem telja að ljúka beri hverjum degi ársins með því að stunda kynlíf og er það í sjálfu sér í lagi hafi báðir aðilar sambandsins úthald getu og nennu til að standa í þvíumlíkum stórræðum daglega.
Málið getur hinsvegar orðið mun flóknara sé taktur einstaklinganna ekki sá sami.Fólk er einfaldlega misupplagt til ástarleikja og eru margir hlutir sem geta spilað þar inní, svo sem aldur einstaklinganna, vinnuálag og fleira. Fólk sem t.d. vinnur erfiðisvinnu allan daginn, getur hreinlega verði of þreytt til ástarleikja síðla kvölds, vitandi sig þurfa að vakna örfáum stundum seinna í jafn erfiðan dag.
Oft þegar rætt er um mismunandi kynlöngun fólks, finnst mér gefið í skyn að karlinn sé þurftafrekari í þessum efnum en konan. Í þessu eru engin lögmál, því kynhvöt er einstaklingsbundin og því ekki eingöngu hægt að tala til karla í þessum efnum um að sýna tillitssemi og virða löngun makans, hinsvegar er það oft þannig við ákveðnar aðstæður í lífinu að kynlöngun verður kannski minni, en venjulega og á það til dæmis oft við hjá konum eftir barnsburð, þá eru þær oft mjög uppteknar af barninu og helga sig því meira og minna.
Margar konur upplifa líka eftir barnsburð að gælur við brjóstin, meðan á brjóstagjafatímabilinu stendur slökkva nánast alveg kynlöngun þeirra og í staðinn koma móðurtilfinningar, jafnvel þó þær hafi notið þess að láta gæla við brjóstin áður. Þetta eru hlutir sem lagast síðan aftur þegar frá líður fæðingunni og er ekkert til að hafa áhyggjur af.
Misskilin tillitssemi
Í góðu sambandi geta einstaklingarnir tjáð sig um þarfir sínar, langanir og drauma án þess að hinn taki því sem höfnun eða kröfu. Best er að geta talað saman af einlægni og hreinskilni og langi annan aðilann ekki að hafa mök af einhverjum ástæðum á hann að geta sagt það beint, án þess að hinn taki það nærri sér og líti á það sem persónulega höfnun og skort á ást.
Oft verður misskilin tillitssemi til þess að eyðileggja kynlíf í hjónabandi/sambandi. T.d. finnst mörgum konum óaðlaðandi að finna líkamslykt, svo sem svita og táfýlu, þegar þær njóta ásta, en vegna tillitssemi við maka nefna þær þetta kannski ekki oft, eða senda óskýr skilaboð sem makinn meðtekur hugsanlega ekki og afleiðingin getur orðið sú, að þær verða fráhverfari manninum við hverjar samfarir, þar til þær að lokum missa alla löngun til mannsins.
Skýr skilaboð í þessu tilefni væru t.d. að láta renna í gott bað fyrir hann, setja t.d. gott baðsalt eða baðolíu útí og ekki skemmir það stemmninguna að kveikja á kertum á baðinu. Fljótlega verður slíkt dekur væntanlega hluti af forleiknum, því forleikur góðra maka varir jú allan daginn.