Bakteríusýkingar

Aðrar sýkingar í leggöngum geta verið bakteríusýkingar vegna krosssmits frá endaþarmi, þegar bakteríur sem eru okkur eðlilegar í endaþarmi og ristli, berast yfir í leggöngin, annað hvort þegar konur strjúka frá endaþarmi fram að leggöngum, þegar þær þurrka sér eftir hægðir, eða þær berast með fingrum, eða jafnvel getnaðarlim, þegar farið er milli gata í kynmökum, frá endaþarmi yfir í leggöng.

Trichomonas vaginalis (frumdýr) er sjúkdómur sem leggst bæði á konur og karla . Lífveran, sem er frumdýr úr hópi svipudýra, þrífst í leggöngum, leghálsi, þvagrás og þvagblöðru kvenna og þvagrás og blöðruhálskirtli karla.

Sýkingin er algengust hjá konum, sem lifa líflegu kynlífi og skipta oft um rekkjunauta og sýkjast þá um 90% rekkjunauta þeirra líka. Hjá körlum eru einkenni fá, aðallega útferð úr þvarrás og sviði við þvaglát. Hjá konum geta einkenni verið illa lyktandi gulleit útferð, særindi og kláði í sköpum og á spönginni, auk sviða við þvaglát. Ef sýkingin nær til þvagblöðru, hljótast af því einkenni, sem minna á blöðrubólgu, tíð og brýn  þvaglát, ásamt sviða og verkjum í lok þvagláts. Báðir aðilar og allir aðrir rekkjunautar, ef um þá er að ræða, verða að gangast undir meðferð, sem oftast er með gjöf á sýklalyfinu Flagyl.