Hver eru einkenni bólgu í blöðruhálskirtli?

Einkenni bráðabólgu eru verkir í blöðruhálskirtli. Þeir koma fram sem verkir í klofi, endaþarmi og yfir lífbeini.

Einnig fylgir þessu oft hiti, útferð frá þvagrás og sviði og erfiðleikar við þvaglát. Krónísk bólga í blöðruhálskirtli veldur þyngslatilfinningu á svæðinu við blöðruhálskirtilinn, sem getur leitt niður í eistun. Einnig getur borið á verk í lendum, sem leiðir niður fótleggi.

Hvað orsakar bólguna?

Bólgan getur verið í bráðaformi eða krónísku formi. Algengasta orsök bráðabólgu er sýking af völdum saurgerla, eða sýking sem smitast við kynlíf. Bráð bakteríubólga í blöðruhálskirtli er fremur sjaldgæfur sjúkdómur. Krónísk bólga í blöðruhálskirtli er algengari, en minna er vitað um orsakir hennar. Hver er meðferð við bólgu í blöðruhálskirtli?

Bráð bólga í blöðruhálskirtli er meðhöndluð með sýklalyfjum.

Krónísk bólga í blöðruhálskirtli er oftast meðhöndluð með heitum setböðum og nuddi á blöðruhálskirtil og/eða lyfjum. Það er læknirinn sem sér um nuddið; hann nuddar kirtilinn gegnum endaþarminn. Þetta er hættulaus sjúkdómur, sem læknast tíðum án meðferðar.