Lykt vegna skýkingar

Oft tala konur um vonda lykt af blæðingum og útferð og getur það í mörgum tilfellum verið fyrsta einkennið, sem konur taka eftir og eru þær flestar viðkvæmar fyrir því, að lyktin finnist af þeim. Lykt af heilbrigðum kynfærum kvenna er sölt og moskukennd og hefur hver kona sinn sérstaka ilm, sem verður sterkari við kynsvörun, egglos og blæðingar.

Notkun allavega ilmefna í innlegg og bindi hefur aukist mjög á síðari árum, ásamt sápunotkun á kynfærin. Það er algjör bannvara, sem orsakar ofurnæmi og jafnvel ofnæmi fyrir bindum o.fl. með tilheyrandi eymslum og þurrki. Svita-, lyktar- og fitukirtlar eru á innra borði skapabarmanna, sem að öðru leiti eru aðallega úr fituvef.

Fitukirtlarnir sjá um smurningu kynfæranna, en lyktarkirtlarnir gefa frá sér slím, sem í er smurning og lyktarefni, sem einkennir kvenfólk við kynörvun. Í skapabörmunum er líka mikið af taugaendum, sem næmir eru fyrir örvun og ertingu.