Einkenni
Einkenni sveppasýkingar geta verið þykk, kekkjótt útferð frá leggöngum, þurrkur, særindi og mikill kláði og jafnvel getur komið gerlykt. Orsökin er þá gersveppurinn Candida albicans, sem er til staðar í líkamanum og er eðlilegur hluti af sveppaflóru legganganna og lifir þar yfirleitt án þess að valda skaða. Við sérstök skilyrði tekur hann hinsvegar að fjölga sér til óþurftar.
Um 80% kvenna fá sveppasýkingu í leggöng einhverntíma á ævinni og geta karlmenn verið með sveppinn á kynfærum án einkenna, en fái þeir einkenni, geta þau verið rauð hreistruð útbrot á lim og pung og þar í kring og þau geta jafnframt náð niður eftir lærum.
Ef sveppasýkingin nær til endaþarms, veldur hún særindum, kláða og jafnvel niðurgangi og á það við um bæði kyn. Því er oft nauðsynlegt við meðhöndlun þrálátra sveppasýkinga, að meðhöndla bæði konuna og manninn samtímis. Sveppasýking er tíðari hjá sumum hópum kvenna en öðrum, einkum er hún algeng hjá konum sem eru á sýklalyfjakúrum og konum með sykursýki.
Líkamsástandið er þá oft óstöðugt og sykur í þvagi skapar þá ákjósanleg skilyrði fyrir hverskyns örverur og sveppavöxt. Konum, sem eru með mikið prógesterón í líkamanum, t.d. meðan á þungun stendur, rétt fyrir tíðir og vegna inntöku hormóna, sem innihalda hátt prógesteron, eins og t.d. getnaðarvarnapillur. Móðir með virka sveppasýkingu, getur smitað barn við fæðingu og það getur fengið sveppasýkingu í munn og háls.